Eldgosinu sem hófst í lok maí 2024 er við það að ljúka ef því er ekki lokið. Hraun rann yfir vegi og yfir varnargarða, nálgaðist virkjunina í Svartsengi en nær þangað varla núna í þessu eldgosi sem stendur yfir. Spurningin er svo hvort það eigi að telja þetta eitt eldgos með mörgum hrinum eða mörg stök eldgos. Jarðfræðilega myndi ég samt alltaf telja þetta einn jarðfræðilegan atburð, þ.e. þessi eldgos sem hafa endurtekið sig á svipaðan hátt frá 18. desember 2023 og raunar frá kvikuhlaupinu 10. nóvember í kjölfar landrissins sem var dagana á undan.
Vangaveltan er þá hve lengi þetta heldur áfram og Haraldur Sigurðsson var búinn að spá því í vor að þessu myndi ljúka núna um mitt sumar. Hann var þar að horfa á línurit um hraða kvikusöfnunar. Ég veit reyndar ekki hvort hann hafði aðgang að einhverjum almennilegum gögnum heldur var hann líklega að lesa þetta af gröfum sem Veðurstofan birti. Það sem ég hef verið að gera er að horfa beint á landrisið í Svartsengi sem er líklega eitthvað nálægt því að vera beint yfir þessu hólfi sem kvikan safnast fyrir í og þá ætti hraði landriss að vera góður mælikvarði á hraða kvikusöfnunar. Þó það sé varla alveg línulegt samband á milli hraða kvikusöfnunar og hraða landriss yfir kvikuhólfi þá er það samt væntanlega sæmileg nálgun – ólíklega stærsti skekkjuvaldurinn. Fyrir landrisið þá er hins vegar hægt að nálgast almennileg gögn á mjög einfaldan hátt sem er hægt að vinna með, https://brunnur.vedur.is/gps/timeseries/timeseries/SENG-plate.NEU.
Á grafinu hér að ofan er hægt að sjá hallatölu landrissins fyrir mismunandi tímabil. Bara með að horfa á grafið sést að tveir punktar passa ekki við hina og með því að flokka þá sem útlagapunkta (outlayers) þá fæst mjög gott línulegt samband fyrir hraða landrissins, sem fer þá línulega minnkandi á milli tímabilanna.
Þessir tveir punktar raunar eru á milli tveggja eldgosa og ættu því í raun að vera að tákna sama hraða landriss. Það tímabíl sker sig hins vegar úr með miklum breytileika þar sem land reis fyrst gríðarlega hratt og svo hægði verulega á því. Ástæðan fyrir hinu gríðarhraða landrisi fyrst eftir kvikuhlaupið mikla 10. nóvember má e.t.v. skýra með afleiðingum þess mikla kvikuhlaups á kvikugeyminn sem hljóp úr. Kvikuhlaupið 10. nóvember er í raun af annarri stærðargráðu ef miðað er við landsig vegna þess en hin kvikuhlaupin. Það var að vísu ekkert eldgos en afleiðingar í breytingum á jarðskorpunni yfir Sundhnúkssprungunni og þar með inni í Grindavík voru umtalsverðar.
Helstu óvissuþættir eru líklega:
- Það er í raun slump hjá mér hvenær hvar hver punktur er settur á tímaásinn, þ.e. hvað telst þá miðja dæmigerðs tímabils og þá einnig hvaða punktar eru teknir með.
- Það er ekki neinn vísindalegur rökstuðningur fyrir af hverju sambandið er línulegt og raunar hefði ég talið að þetta ætti að vera eitthvað margliðufall frekar þar sem hraði kvikusöfnunar ræðst af þrýstingi og aðfærsluleiðum kviku sem eru þá að versna fyrir kvikuhreyfingarnar.
- Seinasta gosinu er enn ekki alveg lokið þó því virðist vera að ljúka. Það má gera ráð fyrir að hraði landriss aukist lítillega eftir að gosinu lýkur sem myndi þá lyfta línunni aðeins og færa skurðpunktinn við tímaásinn örlítið lengra fram á haustið.
Niðurstaða út frá þessu er að það megi gera ráð fyrir að kvikusöfnun og þar með þessum síendurteknu eldgosum við Sundhnúk ljúki núna í haust, nálægt mánaðamótum september/október eða e.t.v. örlítið seinna ef það herðist merkjanlega á landrisi eftir að gosinu lýkur. Fyrir þetta má samt hafa í huga:
- Hugsanlega dugar söfnun kviku ekki til að mynda endurtekin eldgos þegar hraði kvikusöfnunar og þá þrýstingur í kerfinu er kominn niður fyrir eitthvað ákveðið en gjörsamlega óþekkt mark.
- Ef horft er til eldsumbrotanna í Kröflu um og fyrir 1980 þá má gera ráð fyrir að eldgosin verði stærri eftir því sem líður á og að seinasta gosið verði lang stærst. Það er þó enganveginn hægt að slá því föstu og miðað við línurit að neðan sést að það sem er að gerast í Svartsengi/Sundhnúk er að gerast mikið hraðar en í Kröflu og flest kvikuhlaup núna enda með eldgosi en minnihluti í Kröflu. Munum líka að jarðfræðilegt umhverfi Kröflu sem stórt eldstöðvakerfi inni á Norðaustur gosbeltinu og nálægt miðju möttulstróks er talsvert önnur en Svartsengi/Sundhnúkur sem er lítið kerfi í beinum tengslum við Atlantshafshrygginn og í framhaldi af honum, eitt lítið kerfi af mörgum á Reykjanesi og ekki undir jafn beinum áhrifum af möttulstrók. Geri hér ráð fyrir að miðja möttulstróks sé eitthvað nálægt Bárðarbungu eins og hefur oft verið talið líklegt.
- Ljóst er að einhvern tímann lýkur þeim atburði sem við erum að upplifa (“upplifa” reyndar bara í gegnum fjölmiðla og takmarkað skammtaðar upplýsingar frá vísindastofnunum þar sem almenningi er meinað að fylgjast með í raunheimum) en er ekki hægt að reikna með að þessum heildaraburði sem er virknitímabil á Reykjanesi sé lokið. Það þarf að gera ráð fyrir að eldgosatímabil á Reykjanesi stendi í 100 til 300 ár eins og allar vísbendingar eru um fyrri tímabil.
Viðbót, 27.06.2024
Með því að horfa á stóra grafið þá er nokkuð áberandi að hvert eldgos hefur orðið við a.m.k. jafn háa stöðu lands og seinasta gos á undan. Með því að aðeins hafi hægst á landrisinu verður lengra á milli gosa. Miðað við núverandi landris, þá verður næsta eldgos því ekki fyrr en í fyrsta lagi um miðjan ágúst. Halda þarf samt til haga að hraði landriss gæti aukist eitthvað þannig að gos yrði eitthvað fyrr en það má í öllu falli gera ráð fyrir eldgosalausum júlímánuði miðað við það munstur sem hefur verið.
Og enn önnur viðbót, 02.07.2024
Til að gera mig að ómerkingi þá jókst landris á seinustu dögum júnímánaðar og ef það heldur áfram þannig, þá er þessi spá mín með lok atburðarins út frá þeim gögnum sem ég er að vinna með farin fyrir bý. Næsta eldgos verður þá væntanlega einhvern tímann í júlímánuði.