Er ekki ágætt að einhver sófavísindamaður tjái sig.
Hér er graf sem sýnir landris frá því að yfirstandandi atburður hófst í lok október á síðasta ári. Hef svona mismunandi reglubundið bætt inn á þetta graf því sem er að gerast. Byggt á gögnum á vef Veðurstofunnar.
Það má sjá að land hélt áfram að rísa strax eftir að eldgosið hófst 16. mars en það var afar rólegt en þó væntanlega utan allra skekkjumarka að það var landris. Kvikan gubbaðist því ekki öll upp jafnóðum í Sundhnúkagígum. Svo í byrjun apríl gerist eitthvað sem veldur því að það herðir talsvert á landrisinu. Hallatala línunnar þar er hér reiknuð 3.84 sem er talsvert lægra en var fyrir gosið en þá var hallinn yfir 5.
Hvort allur sá munur sé út af því að eitthvað vellu upp úr gígnum ennþá veit ég ekki en finnst það eiginlega ólíklegt.
Spá Haraldar Sigurðssonar var að það drægi úr innflæði kviku í kvikuhólfið og þá finnst mér þetta benda til þess að það sé einmitt raunin. En ég hef engar tölur samt til að miða við þar.
Það að tala um að annað eldgos sé yfirvofandi finnst mér dálítið sterkt tekið til orða en flest eldgos sem standa yfir í langan tíma eru mismunandi kröftug á mismunandi tímum. Ég sé í sjálfu sér ekki að það sé neinn annar mekanismi sem stjórni því en sá sem er í raun verið að mæla hér. Þar sem landrisið sem er mælt í Svartsengi er líkleg nokkuð góður mælikvarði á kvikuna sem safnast þar fyrir þá er hér bara einföld mæling á því hvernig þetta virkar.
Það er þá einhver geymir sem kvika safnast í og sú söfnun heldur núna áfram þó eldgos sé í gangi.