Núna er víst heilt ár síðan allt lék á reiðiskjálfi. Ég var þá að vinna í nýju skrifstofuhúsi sem vinnan mín var nýflutt í. Það kom mér á óvart hvað húsið sveiflaðist rosalega mikið í þeim skjálftum sem gengu yfir. Alveg þangað til ég sá hvað raunverulega var að ganga á. Það var hver skjálftinn á fætur öðrum með styrkleika um 5. Og þá eðlilega hristist allt!
En að deginum í dag.
Ég hélt því víst fram í lok júlí að það yrði ekki eldgos fyrr en um miðjan ágúst í fyrsta lagi. Ýmsir héldu því þá fram að eldgos væri alveg að fara að hefjast þar sem kvikusöfnun væri komin yfir það sem hún var komin við gosið þar á undan. Mynstrið hingað til hefur hins vegar verið dálítið augljóst að land hefur alltaf risið hærra og hærra með hverju gosinu áður en gos hefst. Á sama hátt þá hafa gosin einnig verið að stækka. Það má því gera ráð fyrir sama munstri áfram, þ.e. að land rísi eitthvað yfir það sem var í gosinu þar á undan og jafnvel þá einnig að hvert gos verði stærra en gosið á undan.
Síðasta gos hófst hef ég skráð 22. ágúst og stóð í rúma 10 daga. Gosið var eitthvað norðar á Reykjanesinu það gerði mér kleift að skoða gosið eitthvað og fór einhverja tvo eða þrjá göngutúra til að skoða.
Núna er land ennþá að rísa með reyndar ívið minni ákafa en áður. Þetta er samt það stöðugt að ekki er hægt að leggja neitt út af því með að halda fram einhverri tímasetningu á lokum þessa atburðar, þó það hafi verið reynt í vor að setja tímastimpil á það. Ef þær spár hefðu gengið eftir, þá væri landris ekki lengur til staðar og ekki von á öðru eldgosi.
Hvernig framhaldið verður veit enginn alveg en það má telja líklegast miðað við stöðu landrissins núna, að það verði eldgos í desember, líklega fyrir jól en gæti dregist eitthvað. Land verður samt komið í svipaða stöðu um 20 nóvember og var fyrir síðasta gos en miðað við fyrri reynslu þá verður það einhverjum fáum vikum eftir það sem næsta gos hefst. Ef gos hefst í nóvember þá væri mynstrið í rauninni eitthvað að breytast.
Svo er líka alveg ljóst að einhvern tímann lýkur þessum atburði en hvenær það verður og á hvaða hátt eru held ég bara getgátur. Þetta gæti lognast út af hægt og rólega – eða það gæti komið talsvert stórt eldgos í lokin. Ósennilegt samt að það verði einhver alvarleg jarðskjálftahrina aftur eins og varð fyrir ári síðan.