Fellsmörk home page (icelandic)
Fellsmörk er eitt af verkefnum Skógræktarfélags Reykjavíkur og var hugmyndin með Fellsmörk að þar gætu félagsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur orðið landnemar og fengið úthlutað landskika til plöntunar gegn gjaldi. Þeir myndu sjá sjálfir um að annast kaup á plöntum sem voru upphaflega innifaldar í árgjaldi og úthlutað af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Seinna hætti Skógræktarfélag Reykjavíkur plöntusölu og sáu landnemar sjálfir þá um að útvega plöntur sem hafa komið frá Landgræðsluskógaverkefninu síðustu árin, landnemum að kostnaðarlausu. Gegn því að annast skógrækt á svæðinu og greiða leigu hafa landnemar rétt til byggingar sumarbústaða á sínum skikum.
Fellsmörk samanstendur af jörðunum Felli, Álftagróf og Keldudal í Mýrdalshreppi sem Skógræktarfélag Reykjavíkur leigði af landbúnaðarráðuneytinu í þeim tilgangi að stunda þar skógrækt. Fyrirkomulagið var meðal annars kynnt áhugasömum félagsmönnum í Skógræktarfélagi Reykjavíkur í bréfi sem líklega var sent út haustið 1989. Skógræktin hófst svo árið 1990.
Landnemar stofnuðu með sér félag strax í upphafi og var stofnfundur félagsins haldinn í Norræna húsinu 10. apríl 1990. Á hann mættu 38 manns.
Upphaflega var Fellsmörk um 300 Ha að stærð en þegar Álftagróf var seld út úr Fellsmörk síðla árs 2005 minnkaði svæði líklega um 50 Ha.
Flestir hófu ræktun á svæðinu fljótlega eftir að verkefnið fór af stað á árunum eftir 1990. Nokkrir hafa bæst við síðan. Ákveðin óvissa ríkir nú um hvort fleiri landnemasamningar verði gerðir þar sem slík úthlutun samrýmist ekki lengur stefnu landbúnaðarráðuneytisins sem er eigandi jarðanna sem mynda Fellsmörk. Á meðan ekkert annað hefur verið ákveðið munu ekki fleiri aðilar geta bæst við í Fellsmörk. En upplýsingar um mögulega aðild að Fellsmörk gefur Skógræktarfélag Reykjavíkur.